28. Þáttur. Viðar Eggertsson

Hann lék Drakúla greifa í leikhúsgerð í Dublin í tilefni 100 ára útgáfuafmælis bókarinnar um Drakúla og segir að sagan, sem var gefin út á Viktoríutímanum í Bretlandi árið 1897, sé afar erótísk með sterkum kynferðislegum undirtóni þegar nánar sé að gáð. Enda voru táknmyndir eina leiðin til að nálgast forboðna ávexti á þeim tíma. Viðar Eggertsson leikari, leikstjóri og varaþingmaður er viðmælandi Mumma í nýjasta þætti Kalda Pottsins. Viðar á langa og farsæla sögu úr heimi leikhússins en hefur síðustu árin einnig verið áberandi sem eitt af börnunum sem Reykjavíkurborg lét vista á vöggustofum á árunum 1949-1973, við skelfilegar aðstæður. Í þættinum ræða þeir Mummi vítt og breitt um lífshlaup Viðars og þá ekki síst um vöggustofur fortíðarinnar, svo sem hvað varð til þess að einstæðar mæður og fátækt fólk þess tíma lét börnin sín frá sér inn í þannig aðstæður og hvaða langtímahrif vöggustofuvistin hafði á börn eins og hann, sem var vistaður á vöggustofu fjarri móður frá 17 daga aldri þar til hann var nær tveggja og hálfs árs.

 

 

 

 

Dagskrárgerð. Mummi

Stjórn upptöku. Gunnar Bjarni