
Saga Gömlu Borgar er mjög athyglisverð. Húsið var teiknað af Þorleifi Eyjólfssyni og er eina sinnar tegundar á landinu. Það var reist árið 1929 af ungmennafélaginu Hvöt í Grímsneshreppi, en varð síðar eign hreppsins. Byggt sem þinghús sveitarinnar og skóli en var aðeins nýtt þannig í örfá ár því skólastjórahjónin dóu úr taugaveiki í húsinu og við lásum einhversstaðar að það hefði haft talsverðan fælingamátt fyrstu árin á eftir.
Gamla Borg varð svo samkomuhús sveitarinnar og við höfum það fyrir satt að hér innandyra hafi mörg ástin kviknað! Árið 1966 tók annað og stærra hús við samkomuhaldi sveitarinnar og Gamla Borg varð að bílaverkstæði. Húsinu var lítið sinnt næstu áratugina og 1995 var það orðið ansi lúið og þreytt. Sveitarfélagið átti húsið enn og einhver í sveitarstjórninni fékk þá snilldarhugmynd að best væri að drífa í að rífa kofann áður en komandi veður og vindar myndu vinna endanlega á honum. Búið var að fá björgunarveitina til að drífa það af áður en slæma veðrið sem búið var að spá yrði að veruleika. Ekki bara hugmynd heldur skipulagt plan. Hvað er það með okkur Íslendinga að vera stöðugt að afmá söguna okkar og skapa nýjar í stað þess að bæta við fortíðina og stækka okkur út frá kjarnanum?
Sem betur fer varð það ekki að veruleika því Lísa Thomsen á Búrfelli og fleiri framsýnar konur í hreppnum gripu inn í og tóku húsið í fangið. Svo, í stað þess að verða að minningu frá árinu 1995, öðlaðist húsið nýtt líf.
Fyllt var upp í skörðin sem höfðu verið gerð í útveggi til að koma bílum inn á dansgólfið og mikill metnaður lagður í að endurgera útlit hússins, bæði utan sem innan. Sem betur fer var mest allt af því gamla enn til staðar innandyra. Til að mynda er allur veggpanill og gólffjalir upprunalegar, nema gólfið í salnum. Það var meira að segja lagst í að finna upprunalegu litina innanhúss með því að skrapa niður í gegnum málinguna og leita.
Árið 1999 var húsið endurvígt og varð aftur vettvangur mannamóta í stað bílaviðgerða. Síðustu árin áður en Gamla Borg varð okkar hafði verið fremur lítil starfsemi innan veggja þess og þegar við skoðuðum húsið fyrst fundum við vel fyrir því. Orka þess var hlý og umvefjandi en, er hægt að segja að hús sé einmana og afskipt? Næstu skoðunarferð fórum bara tvö og dvöldum lengi í kyrrðinni inni í samkomusalnum – í zeni hússins. Ég faðmaði húsið bless og fór út í bíl, en Mummi staldraði aðeins lengur við. Hann lýsti því eftir á hvað hann hefði þá fundið sterkt fyrir öndum hússins og þar sem hann stóð í vængjahurðinni og horfði inn yfir dansgólfið var sagt við hann „ekki fara.“ Og við fórum að sjálfsögðu ekki, því frá fyrsta degi var ljóst að við og þetta hús eigum saman.
Við höfum búið okkur heimili með fortíð hússins og erum mjög meðvituð um að við erum ekki ein hér. Það truflar samt ekki á neinn hátt því með okkur á Gömlu Borg býr bara góð orka fyrri tíma, gleði og hlýja.