Að eiga og búa í gömlu samkomuhúsi er draumastaður skapandi fólks sem sér heiminn án takmarkana. Við viljum að sem flestir fái að njóta þess að upplifa anda hússins með okkur og fólk geti heimsótt Gömlu Borg þinghús, heimili okkar hjóna, án þess að það raski heimilisfriðnum að einhverju marki. Eftir talsverðar vangaveltur fundum við út hvernig við getum samfléttað þessi tvö ólíku hlutverk hússins okkar í eina heild. Við ákváðum að gera hér menningarsetur og setja upp stúdíó til að framleiða fjölbreytt efni, aðgengilegt öllum. Við byrjuðum á að færa svefnherbergið okkar af leiksviði hússins og settum þess í stað upp lítið sjónvarpsver á sviðinu með öllum tækjabúnaði sem þarf til að taka upp lifandi myndefni.
Eina sem var ekki alveg að ganga upp hjá okkur voru tæknimálin, því þó Mummi sé kvikmyndagerðarmaður þá eru upptökumál og önnur tæknistjórnun ekki hans sérsvið. En, stundum er eins og lífið sé búið að varða leiðina framundan. Öll púsl féllu saman því við vorum svo heppin að kynnast Gunnari Bjarna, frábærum gaur sem býr hér í næsta nágrenni við okkur. Hann er skapandi tæknisnillingur og var til í að koma að þessu verkefni með okkur. Fyrsta afurð menningarsetursins, viðtalsþátturinn Kaldi Potturinn, fór að taka á sig mynd. Gunnar Bjarni og Mummi eiga sameiginlega allan heiðurinn af þáttunum, Mummi sem þáttastjórnandi og spyrill og Gunnar Bjarni sem stjórnandi upptöku og frágangs þáttanna. Gunnar Bjarni samdi líka stefið sem fylgir þáttunum.
Okkur dreymir um að geta deilt anda hússins með öðru fólki í gegnum fjölbreytt efni sem framleitt verður á Gömlu Borg, sem og viðburði, og við sjáum Kalda Pottinn sem fyrsta skrefið á þeirri leið.
