Dagskrárgerð

Mummi Týr

Mummi er eldhugi sem hefur farið sínar eigin leiðir í lífinu. Á sínum tíma hafnað af skólakerfinu vegna þess að hann passaði ekki inn í þann þrönga lærdómsramma sem þá var boðið upp á þó hann skoraði mjög hátt á greindarprófum, enda bæði lesblindur og með adhd. Mummi var „baldna barnið“ sem samfélagið kunni ekki að taka utan um. Hann lærði síðar að nýta sér það til góðs en það tók langan tíma að vinda ofan af áratuga ósögðum skilaboðum um að vera ekki nógu góður.

Mummi hefur í gegnum lífið farið marga rússibanareiðina. Unnið sigra en líka tapað orrustum. Bognað og jafnvel verið traðkaður niður af kerfinu. Alltaf hefur hann þó náð að rétta úr sér á ný og halda áfram. Mummi hefur afar sterka réttlætiskennd og hefur alla tíð tekið stöðu með þeim sem minna mega sín í samfélaginu. Hann var til að mynda mjög sýnilegur og heyranlegur í íslensku samfélagi upp úr aldamótunum 2000 þegar hann rak meðferðarúrræði fyrir ungt fólk í vanda sem átti ekki í nein hús að venda. Óheflaður heillandi gaur með gullhjarta, bæði kjaftfor og hávær.

Mummi lærði kvikmyndagerð fyrir margt löngu síðan og rak framleiðslufyrirtæki sem framleiddi fjölbreytt myndefni fyrir sjónvarp áður en hann ákvað að einbeita sér að meðferðarstarfinu. Í dag starfar hann á ný sem kvikmyndagerðarmaður og hefur komið sér upp litlu myndveri á sviðinu heima hjá sér á Gömlu Borg í Grímsnesi þar sem Kaldi Potturinn er tekinn upp. Í þetta sinn sjálfur í mynd.

Mummi
Settið